Ákvörðun peningastefnunefndar um hækkun stýrivaxta ætti ekki að koma á óvart enda er hún í samræmi við fyrri yfirlýsingar nefndarinnar og seðlabankastjóra. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi með blaðamönnum vegna ákvörðunarinnar nú fyrir skömmu. Hann segir verðbólguhorfur hafa versnað auk þess sem efnahagsbatinn sé kröftugri en áður var talið.

Már segir ómögulegt að meta hversu stór áhrif óvissunnar á erlendum fjármálamörkuðum verði á íslenska hagkerfið og hversu langvinnt óvissuskeiðið verði. Þá telji peningastefnunefnd að vaxtahækkunin verði ekki til þess að slá á efnahagsbatann. Nauðsynlegt sé að sporna við verðbólguhorfum.