Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og einn af flutningsmönnum að nýju frumvarpi um að afnám áfengiseinkasölu ríkisins blæs á þá gagnrýni að enn eitt frumvarpið um málið sé sóun á tíma Alþingis.

„Alþingi hefur það hlutverk að ákveða hvað má ekki og hver fer í fangelsi og fyrir hvað, þetta er nákvæmlega það sem Alþingi á að eyða tíma sínum í," segir Pawel í samtali við Viðskiptablaðið.

Pawel segir ekki eigi að breyta þeim aðgangshindrunum sem eru í gildi að áfengi með frumvarpinu sem þingmenn ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, auk þingmanna frá flokki Pírata leggja fram á næstu dögum.

Áfram umtalsverðar hömlur

„Nei, það er ekki planið, við erum að gera ráð fyrir að áfram verði umtalsverðar hömlur á því hvernig áfengi verður selt," segir Pawel sem er bjartsýnn á að meirihluti sé fyrir því á þingi.

„Meginmarkmiðið er að afnema ríkiseinokun, en halda áfram ákveðnum talsvert ströngum reglum um aðgengi.

Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að áfengi verði hliðina á annarri matvöru í venjulegum hillum verslana, heldur í sérstöku rými, eða í sérverslunum, menn geti líka starfrækt sérstakar verslanir með áfengi.

Síðan verði hægt að loka fyrir það rými eða eftir atvikum loka fyrir sölu yfir búðarborðið þar sem það hentar best, þegar heimild til að selja áfengi á ákveðnum opnunartímum eða á ákveðnum dögum sé ekki til staðar, enda ekki gert ráð fyrir breytingu á þeim reglum."

Komið til móts við gagnrýni

Pawel segir að með þessu sé verið að koma til móts við gagnrýni þeirra sem telja lýðheilsuvandamál á áfengi vera það alvarlegt vandamál hér á landi að takmarka verði aðgengi að því.

„Það gæti vissulega verið að útsölustöðum muni fjölga, mér þykir það líkleg tilgáta svo ég sé alveg hreinskilin," segir Pawel en hann segir það ekki endilega eitt og sér auka neysluna líkt og sumir noti sem rök fyrir óbreyttu fyrirkomulagi.

„Það verður alltaf eitthvað ákveðið bil sem verður ekki auðveldlega brúað. En við erum alla vega að koma til móts við þessi aðgengisrök, að þetta sé ekki við hliðina á blómkálinu.“

Hugnast ekki markaðsráðandi aðili

Pawel segir það sína persónulegu skoðun að honum hugnist ekki að rekstur áfengisverslana ríkisins verði seldar í einu lagi því þá verði strax einn aðili með markaðsráðandi stöðu.

„Það er kannski munurinn á þessu og fyrri frumvörpum að við gerum ráð fyrir að verslanir ÁTVR geti verið starfræktar núna til áramóta 2017/2018 og þá taki frumvarpið raunar gildi.

Þá um hætti ÁTVR rekstri sínum, svo ekki er gert ráð fyrir neinu tímabili sem það skarast," segir Pawel um það þegar einkaaðilar fá að selja áfengi.

„ÁTVR verði þá bara breytt í tóbaksverslun ríkisins sem sér þá einungis um þá heildsölu og dreifingu á tóbaki sem þeir hafa haft.

Við höfum engar sérstakar hugmyndir um hvað verður um lager og húsnæði þeirrar stofnunar, en ég geri ráð fyrir að það verði bara eitthvað sem fjármálaráðherra geti tekið á."

Aukið vald til sveitarfélaga um tilhögun

Pawel segir gert ráð fyrir að sveitarfélögin fái auknar heimildir til að stýra aðgangsmálum, meðal annars til að koma til móts við gagnrýni á að breytingin geti komið niður á landsbyggðinni.

„Það er gert ráð fyrir að þau geti haft meira að segja um opnunartíma á sínu svæði, eða þessar reglur um það hvernig aðgenginu er háttað, hvort það sé þá selt yfir búðarborðið eða hvort það sé krafa um sér rými innan verslunarmiðstöðvarinnar," segir Pawel sem vill meina að það skaði minni verslanir að geta ekki selt áfengi og nefnir sem dæmi.

„Við höfum ekki áfengisverslun í Glæsibæ, við höfum ekki áfengisverslun í Mjódd, sem gerir það að verkum að þær verslunarmiðstöðvar eiga erfiðara uppdráttar heldur en Kringlan og Smáralindin.“