Tæplega 140 milljóna króna hagnaður var af rekstri Fríhafnarinnar í fyrra. Þetta er 64% aukning á milli ára en árið 2011 nam hagnaðurinn 84,6 milljónum króna. Tekjur námu rétt rúmum sjö milljörðum króna sem er rúmlega 13,2% aukning á milli ára. Á sama tíma fjölgaði farþegum um 12,7% sem fóru um flugvöllinn. Erlendum ferðamönnum fjölgaði verulega en Íslendingum fjölgaði um 3,4% á síðasta ári.

Fram kemur í uppgjöri Fríhafnarinnar að hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) nam tæpum 37% meira en árið 2011 þegar rekstrarhagnaður nam 174 milljónum króna. Handbært fé Fríhafnarinnar nam 207 milljónum króna um síðustu áramót og voru heildareignir 1.585 milljónir króna í lok ársins. Skuldir voru 886 milljónir króna um áramótin og eigið fé í lok ársins  699,2 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall Fríhafnarinnar var 44,1% um áramótin síðustu samanborið við 37% í hittifyrra.

Ríkið græðir

Ríkissjóður hagnast á aukinni veltu Fríhafnarinnar í formi opinberra gjalda. Fram kemur í uppgjöri Fríhafnarinnar að gjöld og greiðslur til ríkissjóðs af rekstrinum hafi numið tæpum 400 milljónum króna í fyrra. Það er 12% aukning á milli ára. Mestu munar um áfengis- og tóbaksgjöld, sem námu 307 milljónum króna í fyrra.