Í síðustu afkomuspá KB banka frá 8. júní síðastliðnum setti Greiningardeild bankans fram áætlun um afkomu 22 félaga í Kauphöllinni á öðrum ársfjórðungi. Öll uppgjörin eru nú komin í hús eftir að Samherji og SÍF skiluð af sér síðustu uppgjörunum 27. ágúst síðastliðinn. Hagnaður félaganna 22 sem afkomuspáin náði til nam 12,7 mö.kr. á öðrum ársfjórðungi saman borið við 13,3 ma.kr. spá Greiningardeildar. Að undanskyldum sjávarútvegsfélögum og sölusamtökum voru uppgjörin almennt yfir væntingum Greiningardeildar á öðrum ársfjórðungi.

Í samantekt sem greiningardeildin hefur sent frá sér kemur fram að hagnaður helstu félaga í Kauphöllinni er rúmlega þrefalt meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra. Flugleiðir, Íslandsbanki, Landssíminn, Actavis, Marel og Össur voru mest yfir hagnaðarspá Greiningardeildar á fjórðungnum.

Í fyrstu viðbrögðum sem Greiningardeild sendi út í kjölfar nýliðinna uppgjöra er að finna nánari umfjöllun um uppgjör hvers félags. Samantekt fyrstu viðbragaða við uppgjörum félaganna er að finna aftar í ritinu ásamt viðaukum þar sem helstu rekstrarliðir félaganna á öðrum ársfjórðungi og fyrstu 6 mánuðum ársins eru bornir saman við spá Greiningardeildar. Í viðaukum er einnig að finna nokkrar kennitölur þeirra félaga sem afkomuspáin náði til.