Í áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta, sem gerð var opinber sl. föstudag, kemur fram að gagnlegt sé skipta aflandskrónueigendum í þrennt, en þeir eiga krónueignir upp á um 450 milljarða króna eða sem nemur um 60% af gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Í áætluninni segir: "Í fyrsta lagi vill eða verður nokkuð stór hópur aðþrengdra fjárfesta að selja krónueign sína við fyrsta tækifæri. Í öðru lagi er vitað að nokkur hluti erlendra krónueigenda eigi krónurnar í þeim tilgangi að fjárfesta í innlendu atvinnulífi þegar færi gefst. Í einhverjum tilvikum er um að ræða fjárfesta sem keyptu krónurnar áður en höftin voru sett á, en hafa ekki getað fjárfest þær í innlendu efnahagslífi vegna haftanna. Einnig getur verið um að ræða aðila sem hafa hug á því að fjárfesta á Íslandi en hafa keypt krónurnar eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á. Þessi aðilar eru ekki líklegir til að losa stöður sínar þótt gjaldeyrishöftin hverfi. Í þriðja lagi er ða öllum líkindum töluvert stór hópur fjárfesta, e.t.v. stærsti hópurinn, sem breytir afstöðu sinni eftir aðstæðum."