*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 31. mars 2015 09:33

Aflaverðmæti dróst saman í fyrra

Verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 26,5% á milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Aflaverðmæti ársins 2014 dróst saman um 10,9% samanborið við árið á undan, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Aflaverðmæti botnfisks nam rúmum 92 milljörðum á árinu sem er 1,1% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti botnfisktegunda nema þorsks dróst saman á milli ára, verðmæti þorskaflans jókst um 11,9% og nam tæpum 53 milljörðum króna árið 2014.

Af flatfiski nam aflaverðmæti rúmum 7 milljörðum á síðasta ári og dróst saman um 28% frá fyrra ári. Þar vegur þyngst ríflega 2,6 milljarða samdráttur í aflaverðmæti grálúðu.

Verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 26,5% á milli ára. Aflaverðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára, nam rúmum 3,8 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við tæplega 16,4 milljarða árið 2013.