*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 15. september 2020 10:55

Aflinn jókst um 16% milli ára

Aflaverðmæti íslenskra skipa jókst um 11% milli ára í ágústmánuði en botnfiskaflinn jókst um 10% en uppsjávaraflinn um 18%.

Ritstjórn
Skel- og krabbadýraaflinn dróst áfram saman milli ára, en hér sést löndun á humri um borð í Jón á Hofi.
Haraldur Guðjónsson

Heildarafli íslenskra fiskiskipa var 16% meiri í ágústmánuði í ár en í fyrra, og var hann rúmlega 131 þúsund tonn samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Aflaverðmætið var hins vegar 11,2% meira í ágúst í ár en fyrir ári, metið á föstu verðlagi.

Botnfiskaflinn jókst um 10% milli ára í mánuðinum, og var hann tæplega 39 þúsund tonn, meðan uppsjávaraflinn jókst um 18% milli ára og var hann í heildina 89 þúsund, en þar af voru 86 þúsund tonn makríll.

Flatfiskaflinn var svo 2.800 tonn, sem er 27% aukning miðað við fyrri ár, en skel- og krabbadýraaflinn dróst áfram saman, fór úr 684 tonnum í ágúst 2019 í 610 tonn í ágúst í ár.

Ef horft er til 12 mánaða tímabils frá september 2019, til ágúst 2020 var heildaraflinn 1.011 þúsund tonn sem er 7% minni en á sama tíma ári fyrr.