Ágæt þátttaka var í ríkisbréfaútboði Lánamála ríkisins síðastliðinn föstudag þar sem í boði voru bréf til sölu í tveggja ára óverðtryggða flokknum RIKB12.

Greining Íslandsbanka fjallar um útboðið í dag. Alls bárust 19 gild tilboð í flokkinn að fjárhæð tæplega 9,2 milljörðum króna. Ákveðið var að taka 17 tilboðum sem hljóðuðu upp á ríflega 8,7 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 3,23% sem er á svipuðu róli og krafa bréfanna var þennan sama dag, segir í Morgunkorni greiningar.

„Þó var niðurstöðukrafan nokkuð hærri en í síðasta útboði á flokknum sem fór fram í byrjun árs, eða sem nemur um 43 punktum. Engu að síður teljum við að ríkissjóður megi vel una við þessa niðurstöðu enda reyndist áhugi fjárfesta mun meiri en síðast, auk þess sem Lánamálum hefur nú tekist að ná áætlun sinni með þessu útboði um að selja bréf í flokknum fyrir um 5-15 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Eftir útboðið síðastliðinn föstudag er flokkurinn orðinn ríflega 40 ma.kr. að stærð.“