*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 27. október 2014 11:15

Ágætur gangur í rjúpnaveiði fyrstu helgina

Varaformaður Skotvís segir veiði á rjúpu hafa gengið ágætlega fyrstu helgina, þó að misjafnlega hafi gengið eftir landshlutum.

Jóhannes Stefánsson

Fyrsta helgin á rjúpnaveiðitímabilinu gekk vel að sögn Arne Sólmundsen, varaformanns Skotvís. „Veiðin var líklega svipuð og í fyrra," segir hann. Henni kunni þó að vera misskipt eftir landshlutum. „Mér skilst að þoka hafi verið að trufla menn fyrir austan," segir hann. „Á Vesturlandi voru menn ágætlega sáttir og menn höfðu fengið það sem þeir áttu von á. Það voru ekkert alltof margir rjúpnalausir."

Norðanlands hafi rjúpa verið nokkuð dreifð, enda jörð hvít og stærra svæði fyrir hana að fela sig á. Líklega muni þeir sem ekkert hafi fengið halda aftur til veiða þar til þeir nái fugl.

Stofninn stærri en í fyrra

Samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands er rjúpnastofninn í uppsveiflu miðað við árið í fyrra og veiðiþol rjúpunnar metið um 48.000 fuglar, sem er nálægt 10% af heildarfjölda stofnsins.

Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir hugarfarsbreytingu hafa orðið hjá íslenskum veiðimönnum á seinustu árum. „Menn eru orðnir ásáttir um að temja sér hófsemi í samskiptum rjúpna og manna." Minna sé um að veiðimenn stundi magnveiðar á rjúpu, en bann gildir við sölu á rjúpu og rjúpnaafurðum.

Stikkorð: Rjúpnaveiði