Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, telur að meirihluti nefndarinnar muni gera breytingatillögur á frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa sem nú fer í gegnum 1. umræðu á Alþingi. Þegar henni er lokið fer málið til nefndarinnar. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Jón segir ágreining meðal þingmanna ekki snúast um gjaldtökuna sjálfa, heldur um aðferðafræðina.

„Ég tel að það sé almenn sátt um að það þurfi að fara fram innheimta til þess að fá fjármagn til að geta byggt frekar upp ferðamannastaði og eins til að búa betur um hnútana þar sem þörf er á. Það virðist líka vera almenn sátt um það hjá hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

Hann kveðst hins vegar viss um að einhver leið verði fundin til að innheimta gjald til að stuðla að vernd náttúru landsins og uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða.