Þótt dregið hafi úr vanskilum á lánum hjá stóru viðskiptabönkunum þá er hlutfallið enn of hátt. Af þeim sökum þurfa bankarnir að viðhalda háum eiginfjárhlutföllum. Við bætist að enn á eftir að skera úr um endurútreikning á gengislánum og sjá hver áhrifin af því verður á bankana. Þá þarf að setja af stað ferli til að meta eiginfjárþörf Íbúðalánasjóðs, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins, svo það geti sinnt eftirliti með fjármálamarkaði.

Daria Zakharova, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fór yfir mat sjóðsins á stöðunni í morgun.

Ferlið sem sjóðurinn nefnir í yfirlýsingu sinni að lokinni endurskoðun á efnahagsaðstæðum hér nefnist ICAAP. Það snýr að áættustýringarferlum og stjórnunarháttum bankanna og áhættuþáttum þeirra. Það byggist á tveimur jafn mikilvægum þáttum: viðskiptastefnu, sem er áætlun til að tryggja langtíma arðsemi fyrirtækis og áhættustefnu, sem er áætlun sem tilgreinir og takmarkar þá áhættu sem fólgin er í viðskiptaáætlun.