Ríkisstjórn Þýskalands hyggst hækka virðisaukaskatt þar í landi um þrjú prósent eftir áramót og hefur ákvörðunin valdið miklum áhyggjum um að hækkunin muni hafa áhrif á efnahagsbatann sem hefur verið undanfarið, segir í frétt Financial Times.

Sérfræðingar sem Financial Times ræddi við telja hins vegar að fyrirtæki séu betur undirbúin fyrir hækkunina heldur en gert hafi verið ráð fyrir.

Verkalýðsfélög, fyrirtækjasamtök, stjórnarandstöðuflokkar og hagfræðingar hafa krafist þess að hætt verði við hækkunina, í ljósi þess að neysla fer minnkandi í Þýskalandi og að nú þegar sé skattinnheimta ríkisins mikil.

Sérfræðingarnir sem blaðið ræddi við segja hins vegar að áhrif hækkunarinnar verði minni og styttri en talið var vegna kröftugs efnahags landsins, vel undirbúinna fyrirtækja og vegna þess að verslunarrekendur hyggjast ekki leggja öll þrjú prósentin á viðskiptavini sína strax.

Forstjóri efnahagssviðs framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, Klaus Regling, segir að hækkunin muni hafa lítil áhrif á uppvöxt í Þýskalandi þegar til lengri tíma er litið. Hann bendir einnig á að samhliða virðisaukaskattshækkuninni verði framlög til velferðamála lækkuð og skili það sér betur til heimila með lægri tekjur, segir í fréttinni.

Verðkannanir hafa sýnt að margir verslunarrekendur eru þegar farnir að hækka verð, á meðan aðrir hyggjast hækka verð smám saman út næsta ár, en talið er að það muni halda verðbólguáhrifum hækkunarinnar í skefjum.