Hlutafé FL Group verður aukið um 44 milljarða króna að markaðsvirði og mun eigið fé aukast við það úr ríflega 20 milljörðum króna í um 65 milljarða króna. Félagið keypti í vikunni flugfélagið Sterling fyrir um 15 milljarða króna. Í úttekt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að félagið er að taka gífurlegum breytingum með þessu og áhættustig þess að gjörbreytast. "Breytt áhættustig félagsins er grundvöllurinn í þessu öllu saman," segir Hannes Smárason forstjóri FL Group.

"Ég veit að það eru margir að fjalla um þessi kaup en því miður eru menn dálítið að missa af aðalfréttinni. Vissulega eru að eiga sér stað viðskipti þarna en aðalfréttin í mínum huga er fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins eins og hann verður eftir hlutafjáraukninguna. Í fyrsta lagi verðum við með eigið fé upp á 65 milljarða sem verður mesta eigið fé sem nokkur verður með í Kauphöllinni fyrir utan bankana fjóra. Ég fæ því ekki séð hvernig áhætta fyrirtækisins getur verið að aukast og mér finnst með ólíkindum að nokkrum skuli detta það í hug að áhættan geti verið að aukast," segir Hannes en hann telur að hlutur fyrirtækisins í easyJet verði auðseljanlegur enda hafi hann þegar fengið nokkrar fyrirspurnir.

Sjá úttekt Viðskiptablaðsins í dag.