Nýr framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), Jóhannes Þór Skúlason, segir nýja starfið felast í að vera fulltrúi félagsmanna bæði út á við og gagnvart stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og stjórnsýslunni.

„Ég held að það hjálpi mér í nýju starfi að hafa unnið í þessu kerfi sjálfur. Bæði þekkir maður margt af því fólki sem vinnur þarna og hvernig þessi kerfi vinna innbyrðis saman. Það er gott að hafa séð það innanfrá,“ segir Jóhannes Þór sem starfað hefur lengi sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formanns Miðflokksins.

„Áhugi á stjórnmálum er eins og vírus, maður losnar aldrei við hann, en í þessu starfi þarf að segja skilið við stjórnmálin að því leyti að maður getur ekki leyft sér að starfa í einum pólitískum flokki á meðan maður er talsmaður hagsmunasamtaka. Þó að tengslin milli mín og fólks í ákveðnum, kannski tveimur stjórnmálaflokkum frekar en öðrum eru augljós. Í þessu starfi þarf að sjálfsögðu að vera hægt að vinna með öllum og sjá sjónarmið allra aðila, sem mér hefur alltaf gengið vel með.“

Jóhannes Þór, sem á tvö börn á unglingsaldri með konu sinni, Æsu Strand Viðarsdóttur, bókasafns- og upplýsingafræðingi, segir upphafið af stjórnmálaafskiptum sínum hafa verið óvænt símtal.

„Ég kenndi frá 2000 til 2011 í Seljaskóla í Breiðholti og líkaði það óskaplega vel, en í október 2008 fékk ég símhringingu frá Ólafi Elíassyni píanóleikara, sem þá var nýbúinn að stofna InDefence-hópinn ásamt öðrum vegna hryðjuverkalaganna sem Bretar beittu á þjóðina. Ég þekkti þennan Ólaf ekki neitt en hann hringir og segir:

Við ætlum að setja upp símaver en með okkur eru að vinna ungt fólk úr fjölbrautaog menntaskólum sem segja mér að þú sért maður sem kunnir að vinna með ungu fólki. Ertu til í að taka að þér að reka það sem þegnskylduvinnu fyrir land og þjóð?

Ég var álíka hneykslaður og restin af þjóðinni og því hugsaði ég með mér að ég gæti alveg lagt viku af lífi mínu í þetta en vikan stendur eiginlega enn. Þarna datt ég inn í InDefence-hópinn sem var gríðarleg vinna í nokkur ár og þar kynntist ég fjöldanum öllum af fólki, þar með talið Sigmundi Davíð.“

Nokkuð þekkt er að Jóhannes Þór er mikill áhugamaður um Eurovision en þess utan hefur hann gaman af bókalestri.

„Ég er mikill vísindaskáldsagnanörd og les bæði mikið og horfi á vísindaskáldsögur. Ég gat ekki á mér heilum tekið þegar tilkynnt var um að framleiðslu á The Expanse-þáttunum hefði verið hætt, því þetta er besta geimópera sem gefin hefur verið út bæði í bókum og í sjónvarpi. Ég fagnaði því mjög þegar Amazon ákvað að taka þættina yfir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .