*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Erlent 18. febrúar 2021 11:50

Air France-KLM þarf frekari ríkisstuðning

Stjórnvöld í Hollandi og Frakklandi vilja veita Air France-KLM aukinn ríkisstuðning.

Ritstjórn
EPA

Fransk-hollenska flugfélagið Air France-KLM þarf frekari ríkisstuðning að halda. Flugfélagið tapaði 7,1 milljarði evra á síðasta ári. Farþegum félagsins fækkaði um 67% og tekjur drógust saman um 59% „á versta ári í sögu flugiðnaðarins“ eins og það er orðað í uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Vöruflutningar bættu að einhverju leyti upp hrun í farþegatekjum.

Félagið vonast til að eftirspurn eftir flugferðum fari að taka við sér þegar bólusetningum verður lokið. Það mun þó ekki gerast alveg á næstunni. Air France-KLM býst því við að flugframboðið á fyrsta ársfjórðungi  verðu um 40% af því sem það var fyrir faraldurinn. 

Lausafjárstaða félagsins lækkaði úr 12,4 milljörðum evra í 9,8 milljarða evra á síðustu þremur mánuðum ársins. Air France-KLM sagði upp yfir fimm þúsund starfsmönnum á síðasta ári og hefur boðað að þúsund manns til viðbótar verði sagt upp. 

Frönsk og hollensk stjórnvöld eru stærstu hluthafar félagsins. Þau stuttu fyrirtækið í fyrra með 10,4 milljarða evra lánum og ríkisábyrgðum. Stjórnvöld í ríkjunum hafa að undanförnu átt í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um frekari ríkisstuðning. Framkvæmdastjórnin hefur viljað að flugfélagið gefi upp lendingaleyfi í skiptum fyrir frekari ríkisstuðning en Frakkar og Hollendingar hafa verið lítt hrifnir af slíkum hugmyndum.