Í nýjasta hefti danska viðskiptatímaritsins Penge & Privatøkonomi er grein eftir blaðamanninn Claus Forrai, sem rekinn var frá tímaritinu fyrir skömmu og kærður til lögreglu fyrir að skrifa lofsamlega um fyrirtæki sem hann hafði fjárfest í áður.

Í greininni skrifar Forrai m.a. um nokkur fyrirtæki, þar á meðal að minnsta kosti tvö sem hann hafði fjárfest í, hótelkeðjuna Millenium & Copthorne annars vegar og Arkil Holding hins vegar.

Ástæðan fyrir því að greinin birtist er að sögn talsmanna tímaritsins að málið kom upp eftir að blaðið fór í prentun, að því er Børsen greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku skrifaði Forrai meðal annars með þessum hætti um Atlantic Petrolelum [ FO-ATLA ] sem skráð er í Kauphöll Íslands.

Tímaritið herðir reglur

Talið er að Forrai hafi hagnast um á fjórða tug milljón íslenskra króna vegna fjárfestinga í fyrirtækjum sem hækkuðu í verði eftir að hann jós þau lofi.

Tímaritið hefur ákveðið að herða reglur um starfsmenn sína með þeim hætti að þeim sé meinað að skrifa um fyrirtæki sem þeir eiga í hlutabréf.