Frá og með morgundeginum 27. febrúar hefst akstur Flugrútunnar á ný en þjónustan hefur legið niðri frá því um miðjan janúar vegna lítillar notkunar komufarþega. Flugrútan þjónustar allar lendingar um Keflavíkurflugvöll.

„Undanfarna daga hefur verið umræða um mikilvægi þjónustu Flugrútunnar fyrir komufarþega til að lágmarka hættuna á að smit berist inn í samfélagið. Við höfum því tekið ákvörðun um að hefja akstur Flugrútunnar á ný,“ er haft eftir Birni Ragnarssyni, framkvæmdastjóri Kynnisferða, í fréttatilkynningu.

„Síðustu daga höfum við haft samráð við opinbera aðila til að útfæra þjónustuna með tilliti til sóttvarna og að þjónustan sé í samræmi við gildandi reglugerð. Einnig höfum við haft samráð við Isavia um að koma á framfæri upplýsingum til komufarþega um þá valkosti sem standi þeim til boða til að komast til Reykjavíkur. Við bindum því vonir við að komufarþegar nýti sér þjónustu okkar svo hægt verði að halda henni gangandi.“

Flugrútan mun stoppa við Fjörukránna í Hafnarfirði, við Aktu Taktu í Garðabæ, við Hamraborg í Kópavogi og á BSÍ.

Kynnisferðir hafa þjónustað flugfarþega frá árinu 1979.  „Þetta í fyrsta sinn sem þjónusta okkar hefur fallið niður á þessum rúmlega 40 árum og því virkilega gleðilegt að koma henni aftur í gang,“ segir Björn að lokum.