Síminn og Alcan á Íslandi (ISAL) hafa undirritað fimm ára þjónustusamning um rekstur tölvukerfa ISAL og ráðgjöf.

Um er að ræða víðtækan samning sem nær í aðalatriðum yfir flest öll tölvukerfi ISAL.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þar kemur fram að samningurinn tekur gildi 1. janúar 2009 og mun Síminn sjá um rekstur miðlægra tölvukerfa, notendaþjónustu og þjónustuborð, afritunarþjónustu, öryggisráðgjöf, hugbúnaðarþjónustu og iðntölvuþjónustu fyrir ISAL.

„Síminn hefur undanfarna mánuði þróað nýjar lausnir sem snúa að alhliða þjónustu við fyrirtæki í tengslum við tölvukerfi og hefur sú þjónusta fengið nafnið VIST,“ segir í tilkynningunni.

„Samningurinn við ISAL er í raun sú þjónusta í stærri og útvíkkaðri mynd.“

Þá kemur fram að Síminn hefur komið að rekstri tölvumála hjá ISAL í fjölmörg ár en þessi samningur gerir þjónustuna víðtækari en áður.

„Við vinnum eftir mjög skýrum öryggisstöðlum og leggjum mikla áherslu á að allir okkar birgjar séu traust og áreiðanleg fyrirtæki,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi í tilkynningunni.

„Það er afar ánægjulegt að gera þennan 5 ára samning við ISAL og efla þannig samstarfið milli fyrirtækjanna enn frekar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

„Starfsmenn Símans og ISAL hafa unnið að þessu verkefni frá því í vor enda um margþætta þjónustu að ræða. Ég er þess fullviss að þessi samningur hafi í för með sér aukið öryggi tölvukerfanna sem og aukið hagræði í rekstri ISAL.“