Íbúum Íslands fjölgaði um 1,8% á síðasta ári að því er fram kemur í hagtíðindum Hagstofunnar . Voru íbúar landsins 338.349 þann 1. janúar síðastliðinn, sem er fjölgun um 5.820 manns milli ára.

Á árinu 2016 fæddust 4.034 börn hérlendis, en 2.309 manns létust, svo náttúruleg fjölgun íbúa var því 1.725 einstaklingar. Á sama tíma fluttust 10.958 einstaklingar til landsins en 6.889 frá því, svo aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.069, þar af 2.899 og 1.170 konur.

Tæplega helmingur með pólskt ríkisfang

Hins vegar voru fleiri íslenskir ríkisborgarar sem fluttu frá landinu en til þess, eða 146. Í byrjun ársins voru 30.275 erlendir ríkisborgarar hér á landi, en þar af voru Pólverjar langfjölmennastir, en alls höfðu 13.795 einstaklingar pólskt ríkisfang, eða 45,6% allra erlendra ríkisborgara.

Á síðasta ári voru fleiri en nokkru sinni af íbúum landsins fæddir erlendis, eða 46.516 einstaklingar, það eru 23.830 karlar og 22.686 konur, sem gerir 13,7% mannfjöldans.

Reykjavík er fjölmennasta sveitarfélagið með 123.246 íbúa, en á árinu fjölgaði íbúðum höfuðborgarsvæðisins um 3.259 manns, sem jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári.