Forstjóri Alfesca, Xavier Govare, var í ljósi efnahagsaðstæðna sáttur við uppgjörið sem hann kynnti fjárfestum og greinendum á fundi eftir lokun markaða í dag. Salan á nýliðnum fjórðungi, sem er þriðji fjórðungu rekstrarársins, nam 118 milljónum evra og dróst saman um 3,6% á pro forma grunni, þ.e. þegar sambærilegir hlutir eru bornir saman. Govare sagði hluta af skýringunni að páskarnir hefðu nú verið í apríl sem hefði valdið því að 11% samdráttur hefði verið í sölu á andaafurðum, sem vega 11% af heildarsölu Alfesca.

Neytendur hafa fært sig úr dýrari vörum í ódýrari og Alfesca hefur reynt að bregðast við því með breytingum á vöruframboði og vöruþróun.

Úr hagnaði í tap

Afkoma fyrir fjármagnsliði, EBIT, dróst saman úr hagnaði upp á 3,8 milljónir evra í fyrra í tap upp á 0,4 milljónir evra nú. Tap var á rekstri Alfesca á fjórðungnum upp á 0,3 milljónir evra, en 1,8 milljóna evra hagnaður á sama fjórðungi í fyrra. Þriðji fjórðungur rekstrarársins, janúar til mars, er jafnan versti fjórðungur Alfesca.

Hækkandi verð á eldislaxi hefur neikvæð áhrif

Tæpur helmingur sölu fyrirtækisins er reyktur lax og aðrar fiskafurðir og hækkandi verð á eldislaxi hefur haft neikvæð áhrif á afkomu Alfesca. Sala á þessum afurðum dróst saman um tæp 3%. Rækjuafurðir vega rúman þriðjung af heildarsölunni og þar var samdráttur upp á rúm 3%. Eins og áður sagði vera andaafurðir 11%, en minnst vegur ýmis konar smurt álegg, eða 6%. Þar var hins vegar vöxtur upp á tæp 3%.

Eiginfjárhlutfall rúmlega 50%

Eiginfjárhlutfall Alfesca hefur farið batnandi og er nú rúm 50% og sömu sögu er að segja um sjóðstöðu. Laust fé umfram skammtímaskuldir nemur nú rúmri 41 milljón evra og hefur vaxið úr tæpum 17 milljónum evra fyrir ári. Fjármálastjóri félagsins, Philippe Perrineau, sagði á kynningarfundinum áðan að stefnt væri að því að halda þessari stöðu, en að hann reiknaði ekki með að hún mundi vaxa mikið á næstunni. Hann var mjög ánægður með efnahagsreikninginn og sagði mikinn styrk í honum fyrir félagið.

Áfram unnið að hagræðingu

Govare ræddi framtíðina í lok kynningarinnar og var jákvæður um framhaldið en sagði aðstæður á mörkuðum krefjandi. Áfram er unnið að hagræðingu innan samstæðu Alfesca, meðal annars  sameiningu félaga, sem ætlunin er að skili ávinningi þegar fram í sækir.