Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti á fundi sínum í nótt að Álfheiður Ingadóttir þingmaður yrði heilbrigðisráðherra í stað Ögmundar Jónassonar. Þetta kemur fram á vefriti Smugunnar.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fjármálaráðherra, lagði til að Álfheiður tæki við og var það að sögn Smugunnar samþykkt.

Hún tekur við ráðherradómi á ríkisráðsfundi á Bessastöðum sem hefst laust fyrir hádegi í dag, fimmtudag.

Ögmundur tilkynnti sem kunnugt er um afsögn sína fyrir hádegi á miðvikudag og sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið að það væri vegna ágreinings um málsmeðferð Icesave-málsins. Ekki væri um málefnalegan ágreining að ræða.

Hann verður því frá og með deginum í dag óbreyttur þingmaður á ný.