Beint og óbeint framlag orku- og áliðnaðar til vergrar landsframleiðslu var á bilinu 7,7%-8,6% árið 2010, eftir því hvaða aðferð er notuð til að reikna út óbeina framlagið. Kemur þetta m.a. fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um framlag áliðnaðar til landsframleiðslu.

Í skýrslunni er byrjað á því að svara þeirri spurningu hvort áliðnaðurinn geti talist grunnatvinnuvegur, en slíkir atvinnuvegir eru þeir sem geta staðið án stuðnings frá öðrum atvinnuvegum innanlands. Það eru helst slíkir grunnatvinnuvegir sem eru þess eðlis að líta megi á beinan og óbeinan virðisauka þeirra sem framlag til landsframleiðslu. Þegar ekki er um grunnatvinnuveg að ræða segir í skýrslunni að ef þeir hyrfu af sjónarsviðinu myndu aðrir springa út í þeirra stað. Það eigi hins vegar ekki við um grunnatvinnuvegi.