Tilkynnt var um útgáfu Alþjóðabankans á jöklabréfum fyrir 3 milljarða króna að nafnverði í dag. Bréfin bera 12,25% vexti og falla á gjalddaga í maí 2009, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Bankinn hefur áður gefið út jöklabréf og í nóvember munu til dæmis bréf bankans fyrir þrjá milljarða króna að nafnverði falla á gjalddaga.

"Nokkuð hefur verið um útgáfur jöklabréfa að undanförnu," segir greiningardeildin, "en síðast tilkynnti þýski bankinn KfW um útgáfu fyrir fimm milljarða króna 23. ágúst síðastliðinn eins og greint var frá í Vegvísi. Jöklabréf fyrir 64 millarða króna hafa nú verið gefin út í júlí og ágúst og er heildarupphæð útistandandi jöklabréfa nú 441 milljarð króna. Búast má við að útgáfa jöklabréfa haldi áfram enn um sinn. Meðal annars teljum við líklegt að stór hluti þeirra 86,2 milljarða króna sem falla á gjalddaga nú í september verði endurnýjaður á næstu vikum."