Ráðherrar evruríkjanna hafa gefið grískum stjórnvöldum frest þar til á morgun til að skila inn nýjum tillögum að samkomulagi við Evrópusambandið og evruríkin. Tillögurnar á svo að ræða á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna á laugardag og á almennum fundi Evrópusambandsríkjanna 28 á sunnudag.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði að þetta væri ein mikilvægasta stund í sögu evrusvæðisins og að síðasti fresturinn rynni út í þessari viku.

Í frétt BBC segir að Grikkjum hafi verið gerðir afarkostir. Annað hvort verði samið núna, eða að raunveruleg hætta sé á almennum bankagjaldþrotum í Grikklandi á mánudag.

Leiðtogar evruríkjanna höfðu gert ráð fyrir því að gríska ríkisstjórnin myndi leggja fram nýjar tillögur í gær, eftir að kjósendur höfnuðu tilboði lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu, en engar tillögur litu dagsins ljós.