Samkvæmt nýjustu verðkönnun ASÍ á fiskmeti þann 2.júní sem gerð var í 27 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð, var í um helmingi tilvika verðmunurinn á hæsta og lægsta verði á milli 50-100%. Kannað var verð á 23 algengum tegundum fiskafurða víðsvegar um landið, en Melabúðin neitaði þátttöku í könnuninni.

Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni í Miðvangi í Hafnarfirði eða í 10 af 23 tilvikum, Fiskbúð Siglufjarðar var næst oftast með lægsta verðið eða í fjórum tilvikum af 23. Hæsta verðið var hjá Hafberg Gnoðavogi í sjö tilvikum af 23, hjá Fiskikónginum Sogavegi í fimm tilvikum og hjá Fiskbúðinni Vegamótum Seltjarnanesi í fjórum tilvikum.

Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 25% upp í 123%. Mestur verðmunur í könnuninni var á stórlúðu í sneiðum sem var dýrust á 3.990 kr./kg. hjá Fiskikónginum, en ódýrust á 1.790 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Fiskás Hellu en það gerir 2.200 kr. verðmun eða 123%. Minnstur verðmunur var á roðflettu og beinlausu ýsuflaki sem var ódýrast á 1.590 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Fiskás og Litlu Fiskbúðinni Hafnarfirði en dýrast á 1.990 kr./kg. hjá Hafberg, Fiskikónginum og Ship O Hoj Reykjanesbæ, en það gerir 400 kr. verðmun eða 25%.