Aukinn kraftur hefur verið settur í kosningabaráttu bæði sambandssinna og sjálfstæðissinna í Skotlandi síðustu vikur, allt frá því að tvær skoðanakannanir í byrjun september sýndu meirihluta fyrir sjálfstæði. Fram að því hafði aldrei mælst meirihluti fyrir sjálfstæði á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ákveðið var að efna til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sjálfstæðissinnar hafa unnið gríðarlega á, sérstaklega á síðustu vikum, og eru hóflega bjartsýnir. Þrátt fyrir að kannanir sýni nú að sambandssinnar hafi vinninginn stendur það tæpt og allt þangað til í gær voru margir óákveðnir. Þá hefur verið bent á að Skoski þjóðarflokkurinn mældist aldrei með meirihluta í könnunum fyrir þingkosningarnar árið 2011 en sú varð samt niðurstaða kosninganna.

Hvað með pundið?

Efnahagsmál hafa verið áberandi þrætuepli í umræðunni um sjálfstæði Skotlands og gjaldmiðillinn er eitt þeirra stærstu. Allir þrír stóru flokkarnir í Bretlandi segja að útilokað sé að Skotar fái að nota breska sterlingspundið ef þeir ákveði að verða sjálfstæðir.

Alex Salmond, forsætisráðherra skosku stjórnarinnar og formaður Skoska þjóðarflokksins, hefur hins vegar ítrekað haldið því fram að Skotar muni víst geta haldið áfram að nota pundið. Hann og aðrir sjálfstæðissinnar segja að allt tal um annað séu innantómar hótanir stjórnvalda í Westminster. Það verði öllum til hagsbóta að gera samninga um gjaldeyrismálin, en að öðrum kosti geti enginn bannað neinum að nota hvaða gjaldmiðil sem er. Skotar myndu þó ekki hafa aðgang að Seðlabanka Englands en myndu engu að síður neyðast til þess að gangast undir vaxtaákvarðanir bankans. Að auki yrðu þessar ákvarðanir ekki lengur teknar með tilliti til aðstæðna í Skotlandi.

Ef sjálfstæðu Skotlandi yrði gert erfitt fyrir að halda pundinu gætu þeir á móti neitað að axla ábyrgð á hluta af skuldum breska ríkisins, en um það þarf alltaf að semja. Samkvæmt greiningu bankans ING, sem sagt er frá í nýjasta hefti The Economist, myndi hlutfall milli skulda og vergrar þjóðarframleiðslu hækka úr 77 prósentum í 86 prósent ef Skotar neita að borga hluta af skuldunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .