Forsvarsmenn BHM funduðu með samninganefnd ríkisins í gær en sú deila er viðkvæmu stigi þar sem BHM hefur boðið verkfall eftir fimm daga, eða þriðjudaginn 7. apríl. Að öllu óbreyttu munu til að mynda allir geislafræðingar nema þeir sem starfa á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar fara í allsherjarverkfall, sem og dýralæknar og lífeindafræðingar.

Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að auðvitað muni kjaradeilan á endanum leystast en það sé lítið sem bendi til þess eins og staðan sé núna.

„Það er raunverulega ekkert að gerast," segir Páll. „Það gerist ekkert fyrr en samninganefnd ríkisins fær víðtækara umboð. Mér sýnist vera það mikið sem ber í milli að það þarf eitthvað nýtt útspil.

Við erum ekki í sömu stöðu og þeir [tæknimenn hjá RÚV] að því leytinu til að það eru ekki sömu andmælin uppi gagnvart okkur og þeim. Sá félagsdómur hefur ekki áhrif á okkur. Það eru hins vegar gerðar athugasemdir við sum af þessum verkföllum eða þau þar sem aðildarfélag fer ekki allt í verkfall heldur hluti félagsmanna þess."

Verkfall geislafræðinga mun hafa víðtæk áhrif í heilbrigðiskerfinu, til mynda á Landspítalanum. Geislafræðingar vinna til dæmis allar myndgreiningarrannsóknir og sinna geislameðferð sjúklinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .