Launahæstur forstöðumanna ríkisstofnanna sem fyrr er forstjóri Landspítalans; hann fær nú greiddar 2.889 þúsund krónur á mánuði en fékk 2.590 þúsund árið 2019. Þar á eftir koma rektor Háskóla Íslands, ríkislögreglustjóri, ríkisskattstjóri og vegamálastjóri með 1.955 þúsund krónur. Til samanburðar er þingfararkaupið nú 1.285 þúsund krónur, ráðherrar fá 2.131 þúsund krónur og forsætisráðherra 228 þúsundum betur. Þá fær forseti 3.484 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Fimm forstöðumenn eru síðan með mánaðarlaun undir einni milljón króna, en þar eru á ferð forstöðumenn Fjölmenningarseturs, Hljóðbókasafns Íslands, Kvikmyndasafns Íslands, Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Kjör þeirra sem lögákveðin laun fá hafa tekið hægari breytingum, en fyrsta breyting þeirra var í byrjun árs 2020. Finna má undantekningu frá því hjá dómurum og saksóknurum, en fyrsta breyting þeirra var sumarið 2019. Frá gildistöku laganna í byrjun árs 2019 hafa laun þessa hóps, sem inniheldur meðal annars þingmenn og ráðherra, hækkað um 16,7%. Þá hafa laun þeirra hækkað um 9,8% frá ársbyrjun 2020.

Þegar forstöðumenn færðust undir KMR var kveðið á um að heimilt væri að greiða þeim viðbótarlaun vegna sérstaks álags í starfi. Samantekt á því hver fengu slíka viðbót ber síðan að birta opinberlega. Nýverið var yfirlit vegna áranna 2019 og 2020 birt, en þar kemur fram að alls hafi viðbótarlaun verið greidd í sjö tilvikum, þar af sex sinnum í fyrra.

Hæstu greiðsluna síðasta ár fékk landlæknirinn Alma D. Möller, eða 2.513 þúsund krónur vegna álags tengds Covid-19. Sú upphæð er í hennar tilfelli ígildi um sex vikna launa. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fékk þrettánda mánuðinn greiddan og Rúna Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, einn þriðja af mánaðarlaunum til viðbótar. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, fékk aftur á móti 210 þúsund krónur vegna álags af völdum sóttarinnar, en það eru tæp 15% af mánaðarlaunum hans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .