Almenn niðurfærsla lána er bæði dýr og óskilvirk aðgerð til að koma til móts við þau heimili sem eiga bæði við greiðslu- og skuldavanda að stríða. Þetta er niðurstaða rannsókna sérfræðinga Seðlabanka Íslands sem kemur fram í umsögn bankans til Alþingis við þrepa aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

„Þannig myndi hugsanleg 20% almenn niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána dreifast þannig að um 57% afskriftanna myndu falla tveimur tekjuhæstu fimmtungunum í skaut, einungis um fjórðungur afskriftanna færi til heimila í greiðsluvanda og tvö af hverjum þremur heimilum í greiðsluvanda væru líkleg til að glíma áfram við þann vanda þrátt fyrir afskriftirnar,“ segir í umsögn Seðlabankans. Gagnrýnir Seðlabankinn notkun stjórnvalda á hugtakinu „forsendubrestur“ og segir vandséð að hugtakið eigi við í þessu tilfelli enda sé það kjarni verðtryggingarinnar að raungildi afborgana og eftirstöðva sé óháð sveiflum í verðbólgu. „Ætla má að langvarandi reynsla Íslendinga af verðbólgu og verðtryggingu lána geri það að verkum að þekking á þessu samhengi sé útbreidd," segir í umsögninni.

Í umsögn Samtaka Atvinnulífsins um aðgerðaráætlunina segir að sagan sýni að sveiflur í efnahagslífi landsins séu mun öfgafyllri en hjá öðrum þjóðum og reglubundið birtist þær í of mikilli hækkun raungengis og kaupmáttar sem síðan leiðréttist með falli krónunnar. „Gengisfall krónunnar árin 2008-2009, verðbólgan í kjölfarið og þar með hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána var því hvorki fordæmalaust, ófyrirsjáanlegt né einvörðungu vegna hruns fjármálakerfisins," segir í umsögn SA.