Takmarka þarf heimildir lífeyrissjóða til kaupa á innlendum hlutabréfum. Ástæðan er sú að íslenskur hlutabréfamarkaður er lítill og veikburða og getur hann ekki borið uppi þær fjárfestingar sem lífeyrissjóðunum eru nauðsynlegar nema í takmörkuðum mæli.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu nefndar um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins. Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í dag.

Í skýrslunni kemur fram að fjölmargar breytingar hafi verið gerðar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna á árunum fyrir hrun. Þær eigi það sammerkt að heimildir sjóðanna til fjárfestinga hafi verið auknar. Breytingarnar eru ekki nógu vandaðar og segir nefndin að setja verði spurningamerki við það hversu vel sumar þeirra hafi verið ígrundaðar.

Sérstaklega er dregið fram að hámarksheimildir sjóðanna hafi verið auknar úr 35% af hreinni eign til greiðslu lífeyris í 60%. Síðasta breytingin var gerð árið 2006.

Nefndin segir breytingar á lífeyrissjóðalögunum með sér að Alþingi hafi fram að falli bankanna verið að bregðast við óskum hagsmunaðila innan og utan stjórnar lífeyrissjóða sem óskuðu eftir rýmri fjárfestingarmöguleikum. Í raun hefði aldrei átt að rýmka heimildirnar á árunum 2004 til 2006 nema að því skilyrði gefnu að ákveðið hlutfall bréfanna væri erlent.