*

föstudagur, 17. september 2021
Erlent 31. ágúst 2021 10:42

Álverð ekki verið hærra í áratug

Álverð hefur hækkað um 40% í ár og náði tíu ára hámarki í LME kauphöllinni í morgun.

Ritstjórn
epa

Álverð hækkaði um 2,9% og náði 2.726 dölum á tonn í morgun.  Verð á áli hefur hækkað um 40% í ár á London Metal Exchange markaðnum og hefur ekki verið hærra frá árinu 2011.

Verðhækkunin hefur ýtt undir verðbólguvæntingar markaðsaðila en fjármálafyrirtækin Goldman Sachs, Citigroup og Trafigura spá öll frekari hækkunum á næstunni.

Í umfjöllun Bloomberg segir að framboð af málminum fylgi ekki eftirspurn, sér í lagi þar sem stjórnvöld í Kína, sem framleiðir um 60% af áli í heiminum, reyna nú að bregðast við kolefnislosun í iðnaðinum. Jafnframt segir að nærri tíu ára tímabil af offramleiðslu gæti verið á enda.

„Fjöldi reglugerða hafa nýlega tekið gildi sem hefur áhrif á framleiðslu áls og ýtir verðinu upp fyrir vikið,“ er haft eftir greinanda TF Futures Co. „Búist er við að stefnur á borð við efri mörk orkunotkunar verði í gildi út árið,“ og bætir við að verðin muni að öllum líkindum hækka svo lengi sem eftirspurn dregst ekki saman.

Hækkandi álverð hefur haft jákvæð áhrif á afkomu Orkuveitu Reykjavíkur sem hagnaðist um 8,8 milljarða á fyrri helmingi ársins. Í uppgjöri OR kom fram að verðmæti langtímasamninga, sem tengdir eru við álverð, hafi sveiflast upp um 11,2 milljarða milli ára.

Stikkorð: ál álverð