Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur fengið samþykki bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar til að markaðssetja samheitalyfjaútgáfu af alzheimerslyfinu Exelon sem gefið er í plástraformi. Þar sem Alvogen var fyrst til að sækja um markaðsleyfi á lyfinuhefur fyrirtækið fengið 180 daga einkarétt á sölu þess. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Markaðssetning lyfsins er sú stærsta í sögu Alvogen en árleg sala plástursins í Bandaríkjunum er um 52 milljarðar króna. Lyfið verður markaðssett í þremur styrkleikum og dreifing lyfsins er hafin.

Fram kemur í tilkynningunni að Exelon plástur (rivastigmine) hafi verið notaður við meðhöndlun á minnisglöpum sem tengist Alzheimers sjúkdómnum. Alzheimers sjúkdómurinn sé í dag sjötta algengasta dánarorsök í Bandaríkjunum og áætlaður kostnaður bandaríska heilbrigðiskerfisins,  vegna sjúkdómsins, sé um 226 milljarðar bandaríkjadala. Markaðssetning Alvogen á nýju samheitalyfi muni lækka lyfjaverð og gefa fleiri sjúklingum möguleika á að njóta meðferðar.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, segir ánægjulegt að tekist hafi að fá einkasölurétt á lyfinu í Bandaríkjunum sem sé stærsti lyfjamarkaður heims.

„Markaðssetning lyfsins er sú stærsta í sögu Alvogen og styrkir enn frekar vaxandi starfsemi okkar í Bandaríkjunum. Frá árinu 2009 hefur Alvogen sett 23 lyf á markað í Bandaríkjunum en þetta er í fyrsta sinn sem okkur tekst að vera á undan samkeppninni með nýtt samheitalyf þar í landi, sem er eitthvað sem öll fyrirtæki stefna að.  Árangurinn má meðal annars þakka öflugu þróunarstarfi okkar í Bandaríkjunum,“ segir Róbert.