American Airlines hyggjast fækka í starfsliði sínu um þúsundir, hætta að nota gamlar flugvélar og byrja að rukka farþega um sérstakt gjald á hverja tösku sem þeir taka með sér í flug. Þetta er gert til að reyna að vega upp á móti mikilli hækkun olíuverðs og veiku efnahagsástandi í Bandaríkjunum, samkvæmt frétt Reuters.

American Airlines er stærsta flugfélag í heimi. Það hyggst minnka umsvif sín á síðasta fjórðungi þessa árs. Því fylgir fækkun starfsfólks, en ekki er vitað um hve mörg störf. Hlutabréf félagsins lækkuðu um 15,5% þegar tilkynnt var um þetta í dag.

„Flugbransinn í dag á erfitt með að taka þá ágjöf sem felst í olíverði á 125 Bandaríkjadali á tunnu, sérstaklega þegar metháu olíuverði fylgir veikt bandarískt efnahagslíf“ sagði forstjóri AMR, móðurfélags American Airlines, í yfirlýsingu.