Forsvarsmenn fataframleiðandans American Apparel tilkynntu í gær að óvíst er hvort fyrirtækið muni starfa áfram.

Fyrirtækið hefur átt í erfiðleikum að undanfarið árið og tilkynnti það um 19,4 milljón dollara tapi á síðasta ársfjórðungi. Í tilkynningu segir að fyrirtækið efast um að eiga nóg lausafé til að viðhalda rekstri næstu 12 mánuðina. Það er nú að vinna úr sínum skuldamálum, en búist er við frekari tapi hjá fyrirtækinu út árið. Því gæti fyrirtækið verið nálægt gjaldþroti, en það á 6,8 milljónir dollara af handbæru fé.

Sala dróst saman um 17% á síðasta ársfjórðungi vegna lokunar nokkura verslana auk styrkleika dollarans. Fjárfestar hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur dregist saman um 86,8% á árinu og dróst saman um 8% í dag.

Enn er vonin ekki úti hjá fyrirtækinu, nýr framkvæmdastjóri var skipaður í júní og ætlar fyrirtækið að skera niður um 30 milljónir dollara í kostnaði á næstu 18 mánuðum.