Hlutafjárútboð fjártæknifyrirtækis Jack Ma, Ant Group, sem heldur utan um Alipay greiðslulausnina, stefnir í að verða það stærsta í sögunni, andvirði 34 milljarða Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 4.728 milljörðum íslenskra króna. Verður það því nokkru stærra en stærsta hlutafjárútboð sögunnar hingað til þegar olíufyrirtæki Sádi Arabíu seldi 1,5% hlut á andvirði 29,4 milljarða dala.

Jafnframt yrði það stærra en hlutafjárútboð fyrrum móðurfyrirtækis Ant Group, Alibaba Group Holding Ltd. sem safnaði 25 milljörðum dala árið 2014. Í útboðinu á Ant Group nú eru eingöngu 11% hluta í félaginu til sölu, en félagið gæti safnað 5,2 milljörðum dala til viðbótar ef rétturinn til að gefa út 15% fleiri bréf yrði nýttur.

Gangi það hlutabréfaverð sem lagt er upp með eftir verður heildarvirði félagsins þar með 313 milljarðar dala. Það samsvarar 43.529 milljörðum íslenskra króna, eða 43,5 billjónum króna. Til samanburðar má nefna að bandaríska greiðslukortafyrirtækið Mastercard var verðmetið á 330 milljarða dala við lokun markaða á föstudaginn.

Jack Ma ríkastur með yfir 11 billjónir

Hlutir Jack Ma sjálfs í Ant Group eru að andvirði 17 milljarða dala, sem færði heildarvirði eigna hans í 80 milljarða dala, eða andvirði 11.126 millljarða króna, sem aftur tryggði stöðu hans sem ríkasta manns Kína.

Ma sjálfur og aðrir æðstu stjórnendur félagsins munu eiga saman 39,5% hluta í Ant Group, ef ekki kemur til viðbótarhlutafjárútboðs, en Alibaba sjálft mun taka þátt í útboðinu til að halda sínum þriðjungshlut, með kaupum á bréfum að andvirði 7,6 milljarða dala.

Alipay er aðalrafræni greiðslumátinn í Kína og hefur hann algerlega tekið yfir sem aðalgreiðslumátinn þar í landi í stað korta eða peningaseðla og myntar. Stefnt er að því að bréf félagsins verði skráð til helminga á bæði kauphöllina í Shanghai og í Hong Kong í næstu viku, en fjöldi kínverskra fyrirtækja hafa safnað milljörðum frá alþjóðlegum fjárfestum í gegnum markaðinn í Hong Kong.

Útboðsbókin fylltist á innan við klukkutíma

Þegar er búið að ganga frá sölu á um 80% þeirra bréfa sem verða til sölu á markaðnum í Shanghai, þá aðallega til fyrirtækja tengdum kínverskum stjórnvöldum, tryggingafélaga, banka sem og þjóðarlífeyrissjóði landsins.

Samkvæmt WSJ var þegar búið að skrá sig fyrir meira en þeim bréfum sem eru í boði á markaðnum í Hong Kong innan klukkutíma eftir að búið var að opna fyrir pantanir í í útboðsbókinni í morgun.

Erlendir fjárfestar sem ætla að kaupa bréf í útboðinu eru meðal annars þjóðarsjóðir Singapúr, GIC Private Ltd. og Temasek Fullerton Alpha Pte Ltd., kanadíski ríkislífeyrissjóðurinn og þjóðarsjóður Abu Dhabi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hins vegar hótað að hindra aðgang kínverskra fyrirtækja að fjármálamörkuðum Bandaríkjanna vegna viðvarandi viðskiptadeilna ríkjanna.