Tim Cook, forstjóri Apple, mun í dag mæta fyrir rannsóknarnefnd bandarísku öldungadeildarinnar til að svara fyrir ásakanir um að fyrirtækið hafi hagað málum sínum þannig að það greiði nær engan skatt af stórum hluta tekna sinna.

Í frétt Guardian um málið er haft eftir þingmönnum að Apple noti „mjög vafasaman“ vef aflandsfélaga til að forðast að greiða milljarða í skatta til bandaríska ríkisins. Meðal þessara félaga eru þrjú írsk dótturfyrirtæki Apple, sem virðast ekki hafa skattalega heimilisfesti í nokkru ríki og greiða því nær engan tekjuskatt.

Eitt þessara félaga, Appple Sales International, hafi verið með veltu upp á 74 milljarða dala á fjögurra ára tímabili en á greiddi nær engan skatt. Árið 2011 nam hagnaður ASI fyrir skatta 22 milljörðum dala, en það ár greiddi fyrirtækið aðeins 10 milljónir dala í skatt, sem jafngildir 0,05% skatthlutfalli.

Carl Levin öldungardeildarþingmaður segir að niðurstöður rannsóknar þingsins muni eflaust vekja athygli í Evrópu, því þær leiði í ljós að Írlandi nægi ekki að vera með mjög lága skatta á fyrirtæki, eða um 12%, heldur innheimti það ekki einu sinni þennan skatt í öllum tilfellum. Samið hafi verið við Apple um að írsk dótturfyrirtæki þess myndu greiða um 2% skatt til írska ríkisins.

Í yfirlýsingu frá Tim Cook hafnar hann algerlega þeim ásökunum sem þingmennirnir hafa komið fram með og segir Apple greiða allan þann skatt sem því ber skylda til að greiða. Bendir hann á að fyrirtækið hafi greitt um sex milljarða dala í skatta til bandaríska ríkisins í fyrra.