Ara Edwald, framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings, systurfélags Mjólkursamsölunnar, hefur verið sagt upp störfum. Stjórn Íseyjar útflutnings tilkynnti þetta í tölvupósti til félagsmanna í Auðhumlu, aðaleiganda MS og Íseyjar, í kvöld að því er fram kemur á Mbl.is.

Ari fór í leyfi frá störfum sínum á fimmtudaginn í kjölfar þess að Vítalía Lazareva sakaði hóp þjóðþekktra manna um að beitt sig kynferðisofbeldi í sumarbústaðarferð í viðtali í þættinum Eigin konur sem birtur var fyrr í vikunni.

„Í síðustu viku birt­ist í fjöl­miðlum um­fjöll­un þar sem fram­kvæmda­stjóri ÍSEYJ­AR út­flutn­ings, auk þriggja annarra nafn­greindra aðila, er ásakaður um þátt­töku í ósæmi­legri kyn­ferðis­legri hátt­semi gagn­vart ungri konu í lok árs 2020," er meðal þess sem fram kemur í tölvu­póst­in­um samkvæmt mbl.is.

„Óná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um fram­an­greint bár­ust stjórn í lok októ­ber 2021. Málið var strax tekið al­var­lega vegna þess mögu­leika að upp­lýs­ing­arn­ar væru rétt­ar, og hef­ur stjórn fé­lags­ins fundað oft um málið, bæði með fram­kvæmda­stjóra og án hans. Málið var enn til meðferðar í stjórn í síðustu viku þegar vatna­skil­in urðu. Eins og all­ir gera sér grein fyr­ir eru mál af þess­um toga bæði al­var­leg og erfið," segir í póstinum.

„Þær ásak­an­ir sem nú eru komn­ar fram á hend­ur fram­kvæmda­stjóra eru með þeim hætti að stjórn fé­lags­ins taldi sér skylt, að vel at­huguðu máli, að segja upp ráðning­ar­samn­ingn­um við hann, með áskilnaði til rift­un­ar síðar ef til­efni gefst til, með hliðsjón af hags­mun­um fé­lags­ins, starfs­fólks og viðskipta­mönn­um þess, og ekki síður meint­um þolanda," segir enn fremur í tölvupóstinum.

Vítalía nafngreindi mennina ekki í viðtalinu en hafði áður nafngreint Ara, Arnar Grant, Hreggvið Jónsson og Þórð Má Jóhannesson í færslu á Instagram. Arnar fór í leyfi frá störfum hjá World Class, Hreggviður sagði sig úr stjórn Vistor og tengdra félaga en hann er aðaleigandi fyrirtækisins og þá sagði Þórður Már sig úr stjórn Festar þar sem hann gegndi stjórnarformennsku.