Um síðastliðin áramót var gengið frá samkomulagi um sameiningu teiknistofanna Landslags ehf. í Reykjavík og X2 hönnun – skipulag ehf. á Akureyri. Í tilkynningu kemur fram að eigendur X2, bræðurnir Ómar Ívarsson skipulagsfræðingur og Ingvar Ívarsson landslagsarkitekt muni ganga í eigendahóp Landslags og munu reka starfsstöð Landslags á Akureyri. Ómar og Ingvar störfuðu um árabil hjá Landslagi þar til þeir fluttu heim til Akureyrar og hófu eigin ráðgjafarstarfsemi árið 2008.

Á vormánuðum fagnar Landslag 50 ára afmæli, en fyrirtækið byggir á samfelldum teiknistofurekstri Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts, sem hóf starfsemi sína á Íslandi í Höfða í Reykjavík í apríl 1963. Núverandi eigendur teiknistofunnar auk Ingvars og Ómars eru Þráinn Hauksson stjórnarformaður, Finnur Kristinsson framkvæmdastjóri, Elízabet Guðný Tómasdóttir og Eiður Páll Birgisson. Í tilkynningunni segir að Reynir Vilhjálmsson hafi dregið sig til hlés en er aldrei langt undan og ávallt reiðubúinn til skrafs og ráðagerða.