*

mánudagur, 1. mars 2021
Fólk 1. október 2020 13:26

Arnar Halldórsson til Brandenburg

Yfirhönnunarstjóri NORD DDB, Arnar Halldórsson, gengur til liðs við Brandenburg nú þegar hann flytur heim til Íslands.

Ritstjórn
Arnar Halldórsson er nýr aðstoðarhönnunarstjóri á Brandenburg en áður starfaði hann um árabil í Skandinavíu.
Aðsend mynd

Auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið Arnar Halldórsson til starfa og mun hann taka stöðu aðstoðarhönnunarstjóra á Brandenburg. Arnar er nýfluttur til Íslands en hann hefur búið og starfað í Skandinavíu um árabil. 

Arnar hefur starfað sem yfirhönnunar- og teymisstjóri (Chief Creatiivity Officer) á nokkrum af virtustu auglýsingastofum Skandinavíu á borð við NORD DDB, The Oslo Company og SMFB. Hann útskrifaðist úr myndlist frá Listaháskóla Íslands og lauk M.Sc. prófi í sjónlist (Visual Arts Electronic Imaging) frá Duncan of Jordanstone College of Art and Design í Skotlandi.

Arnar hefur unnið verkefni fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og má þar nefna McDonald’s, SEAT, Circle K, Diesel, Diadora, Mondelez, IKEA og Geox. Verkefni sem Arnar hefur leitt hafa unnið til ýmissa alþjóðlegra verðlauna, s.s. Cannes Lions, Cresta, Eurobest, The One Show, The New York Festivals, Clio og Epica.

„Það er gaman að vera kominn heim. Árin úti hafa verið lærdómsrík og skemmtileg en að flytja til Íslands felur í sér nýjar áskoranir. Íslensk vörumerki eru mörg hver afar spennandi og ég hlakka til að fá tækifæri til að efla þau og styrkja,“ segir Arnar.

„Þessi aukni hraði í samfélaginu hefur haft mikil áhrif í faginu. Við þurfum að temja okkur meiri langtímahugsun þegar kemur að vörumerkjaþróun. Að gera sköpunarferlinu hátt undir höfði er í raun viðskiptaákvörðun sem eykur verðmæti vörumerkja og skapar þeim jákvæða ímynd þegar fram í sækir. Á Brandenburg fær hugmyndavinnan mikið pláss og það samræmist vel mínum hugmyndum.“

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri á Brandenburg segir að Arnar eigi eftir að styrkja hópinn í félaginu enn frekar.

„Það var virkilega sterkt að ná í Arnar, við höfum vitað af honum lengi. Þegar við fréttum að hann væri að flytja heim, þá kappkostuðum við að fá hann á Brandenburg,“ segir Ragnar.

„Við lifum á skrýtnum en áhugaverðum tímum og það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara að vera á tánum en akkúrat núna. Vera óhrædd við að nálgast hlutina á nýjan hátt og með Arnari koma ferskar hugmyndir að utan.“