„Það verður að auka ábyrgð ráðherra þegar kemur að ákvörðunum þeirra sem hafa efnahagslega þýðingu,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir enga hagstjórn hafa verið við lýði hér í gegnum tíðina og rifjar upp miklar sveiflur í hagkerfinu sem skýra hafi mátt með umfangsmiklum framkvæmdum á vegum hins opinbera um svipað leyti og skattar voru lækkaðir.

Árni Páll var með opnunarerindi á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga nú í hádeginu undir yfirskriftinni: Hvernig hagstjórn þarf Ísland?

Árni Páll segir enga hefð fyrir hagstjórn hér líkt og á hinum Norðurlöndunum og viðurkennir að hann sakni stofnana á borð við Þjóðahagsstofnun sem hafi haft eftirlit með ríkisrekstrinum og reynt að halda honum í réttum farvegi. Stofnunin var lögð niður fyrir um tuttugu árum. „Við höfum leyft okkur hluti sem aðrar þjóðir leyfa sér ekki,“ segir ráðherra og bendir á að nýgerðir kjarasamningar ASÍ og SA hafi verið gerðir í hálfgerðri blindni.

„Nágrannar okkur hefðu ekki gert slíka samninga á sama tíma og verulegur samdráttur er í hagkerfinu,“ segir hann en benti á að engin töfralausn felist í innleiðingu evru ef engin er hagstjórnin. Þvert á móti eigi öguð hagstjórn sérstaklega við í litlu hagkerfi.