Árni Páll Árnason þingmaður og fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir á Facebook-síðu sinni að dómur Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar og Arion banka í gær hafi verið fagnaðarefni. Segir Árni að Hæstiréttur telji að þótt heimilt sé að endurreikna gengistryggð lán með Seðlabankavöxtum þurfi skuldari ekki að borga vangoldna vexti aftur í tímann ef hann hefur fullnaðarkvittanir fyrir afborgunum.

„Lögin, sem við mig eru kennd, gengu eins langt og hægt var að lesa út úr fyrirliggjandi dómafordæmum Hæstaréttar í árslok 2010, eins og sést nú best á að réttarstaðan er fyrst að skýrast nú nær tveimur árum síðar. Þau tóku ekki rétt af nokkrum manni, enda skildu allir bankar fordæmi Hæstaréttar á sama veg og Alþingi. Til dómsmála hefði því alltaf þurft að koma til að fá fram þann ítrasta rétt, sem dómstólar eru nú að dæma.

Ríkið bakaði sér ekki skaðabótaskyldu með setningu laganna. Lögin tryggðu hins vegar öllum heimilum sama rétt og sumum heimilum hafði verið dæmdur. Þannig eru þúsundir heimila nú laus við gengistryggð lán vegna þessara laga, sem þau hefðu ella setið uppi með. Þau tryggðu líka uppgjör innan mjög skamms tíma og leystu úr margvíslegum álitamálum,“ segir Árni.