Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, segir að tvíátta skilaboð í gengismálum hafi verið vandamál. Ekki sé hægt að tala upp tiltrú á efnahagslegan stöðugleika á Íslandi á meðan talað sé um að það sé markmið með íslenskri krónu að hægt sé að fella gengi.

Árni Páll sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að hann hefði fengið slíkar yfirlýsingar í bakið í samtali við bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Í Fréttablaðinu í dag segir hann að þar hafi hann óskað eftir stuðningi við skjótt afnám gjaldeyrishafta og upptöku evru. Þar á bæ hafi menn vísað í orð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, um kosti þess að geta fellt sjálfstæða mynt.

Árni Páll segir allt slíkt tal mjög hamlandi fyrir erlendri fjárfestingu. Steingrímur segist ekki muna eftir því að hafa nokkru sinni rætt um mikilvægi þess að geta fellt gengið. Hann segir Íslendinga búa við þann veruleika að hafa íslensku krónuna. Óábyrgt sé að móta ekki framtíðarstefnu á henni, skyldi svo fara að þjóðin hafnaði aðild að ESB.