Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir sektirnar ekki hafa einar skilað þessum árangri, því embættið hefur fundað mikið undanfarið með endurskoðendum og Félagi bókhaldsstofa og hvatt til betri skila. „Ársreikningaskil hafa lengi verið mjög slök,“ segir Skúli Eggert Þórð­arson ríkisskattstjóri. „Þau hafa farið lítið eitt batnandi undanfarin ár en löguðust mikið þegar tekin voru upp sérstök sektarákvæði fyrir nokkrum árum. Fyrirkomulagið á sektar­ álagningunni var hins vegar þungt og viðurhlutamikið og ákveðið að breyta því rækilega.“

Það var gert og er þeim nú beitt í fyrsta skipti. Ákvæðin eru í stuttu máli þannig að skili félag ekki ársreikningi til ársreikningaskrár innan tímafrests, það er átta mánuðum eftir lok reikningsárs, leggst 600.000 króna sekt á félagið. Sektin lækkar um 90% sé skilað innan 30 daga frá dagsetningu sektarákvörðunar, 60% lækkun ef ársreikningi er skilað innan tveggja mánaða og 40% lækkun er á sektarfjárhæð ef skilað er innan þriggja mánaða frá dagsetningu sektarákvörðunar.

Ef skilað er eftir að þrír mánuðir eru liðnir stendur sektarfjárhæð­ in óbreytt í 600.000 krónum. „Það er alveg greinilegt að þeir sem eiga að standa skil á ársreikningum eru að forðast sektirnar. Og það hefur sýnt sig að þetta fór bara mjög vel,“ segir Skúli Eggert. Á meðfylgjandi grafi sést greinilega að skil ársreikninga stórbatna milli áranna 2016 og 2017. Þannig höfðu um 60% skilað ársreikningi 30. september í fyrra, sem er vel að merkja mánuði of seint, en 81% á sama tíma í ár. Helmingi færri áttu því eftir að skila ársreikningi á þeim tíma í ár samanborið við sama tíma í fyrra.

Ársreikningaskrá ekki gjaldfrjáls enn

Benedikt Jóhannesson, fráfarandi fjármálaráðherra, talaði í byrjun árs um að gera uppflettingar í ársreikninga, hluthafaskrá og fyrirtækjaskrá gjaldfrjálsar. Skúli segir að til þess að uppflettingar í ársreikningaskrá verði gjaldfrjálsar þurfi að koma til lagabreytingar, sem ekki var mælt fyrir á liðnu þingi. „Það var gerð lagabreyting um fyrirtækjaskrána en það nær ekki til ársreikningaskrár. Skráin er auðvitað fjármögnuð með uppflettikostnaðinum,“ segir Skúli Eggert. Kostnaður við rekstur ársreikningaskrárinnar er, þegar allt er talið, á bilinu 160 til 180 milljónir á ári og notendur skráarinnar standa undir kostnaðnum. Fjármálaráðherra sagði í ársbyrjun að málið væri í forgangi og að hann myndi grípa til víðtækra ráðstafana. Hann hefði meðal annars heimsótt ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra á sínum fyrstu dögum í ráðuneytinu til að fá tillögur inn í aðgerðir stjórnvalda gegn skattaskjólum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.