Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn um umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari og Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari séu hæfust til að hljóta setningu í embættið, og að ekki verði gert upp á milli hæfni þeirra tveggja.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti þann 10. febrúar sl. laust til setningar embætti dómara við Landsrétt vegna leyfis dómara við réttinn til sex ára. Sett verður í embættið til og með 28. febrúar 2029.

Fjórir héraðsdómarar sóttu um setningu í embættið. Mesta athygli vakti að Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu SA og Eflingar í síðustu kjaralotu, væri meðal umsækjenda. Eftirtalin sóttu um setningu í embættið:

  • Arnaldur Hjartarson héraðsdómari
  • Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari
  • Ástráður Haraldsson héraðsdómari
  • Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari

Dómnefndina skipuðu: Eiríkur Tómasson, formaður, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Kristín Benediktsdóttir, Reimar Pétursson og Þorgeir Örlygsson. Umsögn dómnefndarinnar má finna hér.

Þegar tilkynnt var um umsækjendurna í mars sagði dómsmálaráðuneytið að sett verði í embættið „hið fyrsta“ eftir að dómnefndin lyki störfum.