Stofnandi WikiLeaks, Julian Assange, hefur samþykkt að verða yfirheyrður af sænskum saksóknurum í London vegna ásakana um kynferðisbrot fyrir nokkrum árum. Þetta staðfestir sænski lögmaður hans við AFP .

Lögmaður hans segir Assange ekki hafa gert neinar sérstakar kröfur vegna yfirheyrslunnar. Hann segist ennfremur ekki vita nákvæmlega hvenær yfirheyrslan muni eiga sér stað.

Í mars báðust sænsku saksóknarnir til þess að koma til London til að yfirheyra Assange, en áður höfðu þeir krafist þess að hann kæmi til Svíþjóðar vegna málsins, sem hefur staðið í stað í nærri fimm ár. Saksóknarnir sögðust hafa breytt um skoðun vegna þess að ásakanirnar fyrnast í ágúst.

Sænsk yfirvöld gáfu út handtökuskipun á hendur Assange árið 2010 eftir að tvær sænskar konur ásökuðu hann um kynferðisbrot. Assange sem hefur alltaf harðneitað ásökunum hefur búið í sendiráði Ekvador í London síðan árið 2012 til að forðast framsal til Svíþjóðar. Hann hefur neitað að ferðast til Svíþjóðar vegna hræðslu hans um að verða framseldur þaðan til Bandaríkjanna þar sem verið er að rannsaka leka WikiLeaks á fjölda leyniskjala bandaríska hersins.