Lánsfjárþrengingarnar sem komu í kjölfar niðursveiflunnar á íbúðamarkaði eru farnar að valda erfiðleikum í atvinnuhúsnæði. Verð á skrifstofubyggingum, verslanamiðstöðvum og íbúðabyggingum (e. apartment complexes) hefur lækkað og sumir eigendur hafa lítið fé á milli handanna, að því er segir í frétt WSJ.

Endurfjármögnun gengur illa

Eitt fórnarlambið er Centro Properties Group, ástralskt fasteignafélag sem er fimmti stærsti eigandi verslanamiðstöðva í Bandaríkjunum. Hlutabréf í félaginu féllu um 90% á tveimur dögum í síðustu viku þegar fyrirtækið reyndi að endurfjármagna 6,2 milljarða Bandaríkjadala skammtímalán vegna yfirtöku á eiganda verslanahúsnæðis í Bandaríkjunum.

Annað dæmi er nefnt um þróunarfélag í New York sem á í erfiðleikum með að endurfjármagna 7,1 milljarðs dala skammtímalán vegna verulega skuldsettrar yfirtöku á sjö skrifstofubyggingum í Manhattan.

Markaður með atvinnuhúsnæði nánast lamaður

WSJ segir að þessi tvö dæmi endurspegli erfiðleikana á markaði fyrir atvinnuhúsnæði. Sá markaður hafi verið afar góður, en síðustu mánuði hafi hann nánast verið lamaður vegna þess að fjármögnun hafi nánast þornað upp. Fjöldi seldra stórra verkefna hafi minnkað um helming og margir hafi áhyggjur af því að markaðurinn muni halda áfram að versna með rólegri sölu og áframhaldandi verðlækkun.