*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 1. mars 2018 11:20

Átakalota framundan í kjaramálum

Forseti ASÍ óttast átök í næstu kjarasamningalotu og framkvæmdastjóri SA segir niðurstöðuna marka upphaf frekar en endi.

Gunnar Dofri Ólafsson
Frá fundi formanna ASÍ í gær
Haraldur Guðjónsson

Formenn 28 aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) greiddu í gær atkvæði gegn því að segja upp kjarasamningi sambandsins við Samtök atvinnulífsins (SA). Samningurinn gildir því til ársloka en forsendunefnd ASÍ taldi forsendur samningsins brostnar og því hefði heimild til uppsagnar hans virkjast. 21 formaður greiddi atkvæði með uppsögn samningsins. Þrátt fyrir að meirihluti formanna hafi greitt atkvæði gegn því að segja samningnum upp standa tæp 67% félagsmanna ASÍ að baki formönnunum 21 sem vildu segja samningnum upp, en til að segja honum upp hefði hvort tveggja þurft meirihluta formanna og meirihluta félagsmanna að baki ákvörðun um uppsögn.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir niðurstöðuna benda til þess að menn hafi viljað velja sér tímasetningu næstu kjarasamningalotu. „Samningurinn rennur út í lok árs en í honum er 20.000 króna hækkun á lægstu launum og 3% almenn hækkun. Verðbólga er lág og það er kaupmáttaraukning á árinu í kjarasamningi. Við skulum taka það,“ segir Gylfi. „En það var alveg einhugur á fundinum um mat á stöðunni og þeirri gremju sem er meðal aðildarfélaganna og margir sem tóku þátt í umræðum og gáfu sér góðan tíma. Það er engin launung á því að gremjan snýr að talsverðu leyti að stjórnmálunum. Ég hef sagt mjög lengi að það sé verk að vinna af hálfu stjórnmálanna að leggja grunn að meiri sátt í þessu samfélagi. Menn mátu það sem stjórnvöld eru tilbúin að gera en töldu það einfaldlega ekki nóg,“ segir Gylfi.

„Ofurskatta á ofurlaun“

Gylfi segir ákveðna vísbendingu felast í því að formenn félaga með 67% félagsmanna ASÍ innanborðs hafi greitt atkvæði gegn samningnum. „Ég held að stjórnmálin verði að líta á þetta sem skilaboð. Atburðarásin í gær með Landsvirkjun og bankana – þetta er ákall á að stjórnmálin verða að gera eitthvað í þessu, því þau eiga tvo af þremur bönkunum og Landsvirkjun. Það kemur í ljós að það er ekki til hluthafastefna ríkisins um með hvaða hætti þeir sem fá sjálftökuákvarðanir í stjórnum fyrirtækja geti tekið sér laun. Þrátt fyrir alla umræðuna um kjararáð. Svo kemur í ljós að formaður kjararáðs er formaður stjórnar Landsvirkjunar. Hann er búinn að undirbyggja þetta mjög vel í kjararáði með hvaða hætti hann gæti hækkað sín eigin laun. Ef stjórnvöld vilja skapa sátt á vinnumarkaðnum þarf Alþingi að taka ákvarðanir um það. Ég hef sagt að það eina sem hefur haldið aftur af þróun ofurlauna eru ofurskattar á ofurlaun. Það á einfaldlega að setja 65% skatt á tekjur umfram tvær milljónir og að það sé skýr afstaða stjórnvalda að við viljum ekki svona og ef þið gerið það þá fer það að mestu leyti í ríkissjóð,“ segir Gylfi.

„Ég held að fyrir næstu samningalotu verðum við að fara heim í hérað og undirbúa næstu kjarasamninga því það er alveg ljós að það verður að miklum líkindum þörf á að félagsmenn komi að þeim samningum með beinum hætti. Þá er ég að tala um hugsanlegar aðgerðir,“ segir Gylfi, sem óttast að næsta kjarasamningalota verði átakalota. „Ég óttast líka að þetta verði ekki rekið á rökunum einum.“

Upphafspunktur frekar en endapunktur

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, telur niðurstöðu fundarins í gær hafa verið skynsamlega og bendir á að kaupmáttur launa hafi aukist um 20% á samningstímabilinu og kaupmáttur lægstu launa um 25% – meira en nokkru sinni fyrr í hagsögunni. „Dagurinn í dag er enginn endapunktur heldur frekar upphafspunktur að mikilli vinnu. Vinnan fram undan er í mínum huga ósköp einföld. Verkefnið er að festa í sessi þessa sögulegu kaupmáttaraukningu. Ég hef stundum talað fyrir því að stundum sé skynsamlegt að sækja fram af mikilli hörku en stundum skynsamlegt að doka við og verja það sem áunnist hefur. Ég er þeirrar skoðunar að við séum á þeim tímapunkti núna,“ segir Halldór Benjamín. „Það er hins vegar mikilvægt að við hefjum undirbúning strax að kjaraviðræðum í maí eða júní og nýtum haustið vel með það að marki að samningur taki við af samningi í árslok. Það er enginn stikkfrí í þeirri nálgun,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.