Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, og fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur sent Viðskiptablaðinu grein sem er svar við skrifum Týs. Skrif Týs birtust á vef Viðskiptablaðsins í gær undir yfirskriftinni „Enn ein glæsileg niðurstaða Steingríms J".

Pistill Steingríms birtist hér að neðan:

Glæsileg blaðamennska á Viðskiptablaðinu !
Í dálki sem Týr nefnist birtir ónafngreindur höfundur skrif sín undir fyrirsögninni; „Enn ein glæsileg niðurstaða Steingríms J.“ Ekki er fjallað í greininni um til hvers orðin „enn ein“ vísa.

Nóg um það og víkjum að þessari glæsilegu niðurstöðu sem greinin fjallar um og mér er svo kirfilega eignuð. Jú, þar er átt við rekstrarerfiðleika fyrirtækisins Marmetis í Sandgerði. Er nánast eins og hlakki í skrifara yfir erfiðleikum fyrirtækisins sbr. og að hann talar í greininni um að lög um nýfjárfestingar „niðurgreiði skussana“.

Undirritaður kýs að leiða algerlega hjá sér augljósa andúð blaðamannsins eða skrifarans á sér og sinni pólitík. Hitt er verra ef óskyldir aðilar gjalda þessara viðhorfa í umfjöllun hans eða Viðskiptablaðsins um viðkvæm mál sem verður í skötu líki og blaðmennskan úti í mýri. Erfiðleikar sem komið hafa upp í rekstri nýs fyrirtækis sem miklar vonir voru bundnar við ekki síst í Sandgerði þar sem atvinnuástand hefur verið erfitt, eru ekki gamanmál. Ég legg til að höfundurinn beini frekar spjótum sínum að mér beint en ekki í gegn um erfiðleika Marmetis. Enn betra væri ef hann eða hún þyrði að gera það undir nafni. Viðskiptablaðið getur svo sett hæfan blaðmann í að fjalla faglega um lög um nýfjárfestingar og/eða eftir atvikum einstök mál sem þeim tengjast.

Rammalög um nýfjárfestingar
Erfiðleikar í rekstri áðurnefnds fyrirtækis, sem undirritaður vonar svo sannarlega að greiðist úr, breyta engu um það að veruleg framför var fólgin í setningu laga nr.99/2010, laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, frá því sem fyrir var. Áður voru sett sérlög í hverju og einu tilviki um erlendar stóriðjufjárfestingar en öðrum stórum og meðalstórum nýfjárfestingaverkefnum stóð ekkert slíkt til boða. Ég vona svo sannarlega að ný ríkisstjórn beri gæfu til að endurnýja lagaramma um stuðning við nýfjárfestingu og uppbyggingu í íslensku atvinnulífi, ekki veitir af. Reyndar sé ég í fréttum að ráðherra hefur nú undirritað ívilnunarsamning um allstórt fjárfestingaverkefni á Ásbrú og skulum við vona að því vegni vel.

Ekki er í sjálfu sér ástæða til að elta ólar við rangfærslur hvað varðar efnisatriði málsins í áðurnefndri grein. Fullyrðingar eins og sú að ívilnanir til Marmetis, “ hafi án vafa kostað ríkissjóð verulegar fjárhæðir“ lýsa það djúpri vanþekkingu að ekki þarf frekari vitna við. Fari svo að forsendur ívilnunarsamnings bresti í einhverjum tilvikum verður þjóðarbúið því miður af þeirri verðmætasköpun, störfum og tekjum sem ella hefði orðið, en ríkið hefur engu tapað, enga áhættu tekið og ekkert lagt út nema lítilsháttar vinnu í ráðuneyti.

Steingrímur J. Sigfússon