Viðskiptablaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá frá Sigurgeiri B. Kristgeirssyni, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar hf.

Fleipur í skjóli nafnleyndar

Í Viðskiptablaðinu 11. ágúst er birt grein, með yfirbragði fréttaskýringar, þar sem fjallað er um „lagalega óvissu“ í Vinnslustöðinni hf. og meint „uppnám“ (!) í almennum stjórnarstörfum í félaginu í kjölfar þess að „ekki tókst að að kjósa nýja stjórn“ á aðalfundi 6. júlí 2016. Heimildir fyrir þessum fullyrðingum eru sóttar í raðir ónafngreindra minnihlutaeigenda í Vinnslustöðinni og þær látnar standa sem „Stóri sannleikur“. Blað sem kennir sig við viðskipti á að gera betur.

Af þessu tilefni er rétt að fram komi.

  1. Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar, sem var haldinn í júlímánuði. Minnihluti eigenda gerir hins vegar athugasemdir við það hvernig staðið var að stjórnarkjörinu. Vegna þess hefur stjórn Vinnslustöðvarinnar samþykkt (11. ágúst) að boða til hluthafafundar 31. ágúst næstkomandi og kjósa félaginu stjórn. Það er gert að kröfu Seilar ehf., stærsta hluthafans. Allri óvissu verður þar með eytt um stjórnarkjör og framkvæmd þess á aðalfundi félagsins.
  2. Viðskiptablaðið fullyrðir að hlutafélagaskrá RSK hafi borist „tvær tilkynningar um nýtt stjórnarkjör“. Er það svo? Staðfesti Hlutafélagaskrá þetta gagnvart Viðskiptablaðinu? Sé svo, eru það vissulega umtalsverð tíðindi því félagið sjálft hefur enga tilkynningu sent hlutafélagaskrá, þar sem fulltrúi minnihlutans í stjórn félagsins neitaði að skrifa undir tilkynningu. Stjórn félaga tilkynnir breytingar á stjórn, ekki einstakir hluthafar. Sú stjórn, sem skráð er í fyrirtækjaskrá RSK, hverju sinni er rétt stjórn hvers félags.
  3. Viðskiptablaðið fullyrðir: „Almenn stjórnarstörf í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum eru um þessar mundir í uppnámi ...“ Hvernig hefur það birst og hvenær?
  4. Viðskiptablaðið hefur eftir heimildarmanni sínum úr röðum minnihlutaeigenda: „Málið er bagalegt fyrir félagið sem hefur staðið í miklum fjárfestingum og framkvæmdum undanfarið enda ekki með fullu ljóst hvort í félaginu sé nú stjórn með virkt umboð og staðan því að flestra mati óviðunandi. Að sögn talsmanns minnihluta hluthafa í félaginu hefur ekki verið gengið endanlega frá fjármögnun framkvæmdanna og ríkir vafi um hvort framkvæmdastjóri geti fengið staðfestingu stjórnar fyrir slíkum aðgerðum á meðan óvissan er uppi.“

Við þetta er margt að athuga. Stjórn VSV samþykkti fyrir tveimur árum að smíða nýtt skip í Kína, síðar að kaupa tvö uppsjávarskip og loðnukvóta og reisa nýtt hús yfir uppsjávarvinnslu félagsins. Þetta eru fjárfestingar upp á sjö til átta milljarða króna. Allar voru þær samþykktar á sínum tíma í stjórn félagsins. Að sjálfsögðu! Óhugsandi er reyndar að nokkrum stjórnarmanni hafi dottið í hug að samþykkja slíkar fjárfestingar án þess að samþykkja líka að fjármagna þær. Þarna ríkir engin óvissa. Mál eru í eðlilegum farvegi.

Viðskiptablaðið hefði betur fylgt starfsreglum góðrar blaðamennsku og ekki látið duga að leita heimilda um efni greinarinnar einungis í röðum minnihlutaeigenda í VSV. Umfjöllunin hefði batnað og það verulega við að leita fanga víðar.

Athyglisvert er reyndar að heimildarmenn blaðsins í minnihlutahópnum standa ekki fyrir máli sínu undir nafni, heldur er nafnleysingjum veitt skjól til að draga upp þá mynd að allt sé í óvissu, uppnámi og fári í Vinnslustöðinni. Fjölmiðlar eiga að vera gagnrýnir á allar heimildir sínar og heimildarmenn, ekki síst þá sem leiddir eru fram á völlinn í skjóli nafnleyndar og notfæra sér stöðuna til að fara með fleipur – staðfastlega og viljandi.

Athugasemd ritstjóra.

Viðskiptablaðið hefur það fyrir reglu að leiðrétt alltaf það sem misferst í fréttaflutningi blaðsins og biðjast velvirðingar þegar það á við. Við vinnslu þeirrar fréttar sem Sigurgeir gerir athugasemd við var stuðst við yfirlýsingar og tilkynningar, bæði frá fulltrúum minnihluta og meirihluta hluthafa í Vinnslustöðinni. Samkvæmt þeim var ljóst að hóparnir höfðu annars vegar mjög mismunandi sýn á þá stöðu sem upp væri komin innan fyrirtækisins eftir umræddan stjórnarfund og hins vegar hvernig þeir vildu taka á þeirri stöðu.

Upplýsingar um að tvær tilkynningar hefðu borist hlutafélagaskrá voru fengnar frá heimildarmanni í hlutafélagahópi Vinnslustöðvarinnar og í kjölfarið ræddi blaðamaður við starfsmann hjá Ríkisskattstjóra til að grennslast fyrir um hversu langan tíma gæti tekið að fá niðurstöðu í málið hjá hlutafélagaskrá. Starfsmenn þar voru flestir í sumarfríi, en þó fengust þær upplýsingar frá embættinu að þetta gæti tekið allt að nokkrum mánuðum. Að þessum upplýsingum fengnum gerði blaðamaður ráð fyrir því að fullyrðingin um tilkynningarnar væri rétt.

Sé svo ekki er sjálfsagt að biðjast velvirðingar á því. Athugasemd Sigurgeirs rennir hins vegar enn frekari stoðum undir það að ekki er sami skilningur meðal minni- og meirihluta á lögmæti stjórnarkjörsins.

Hvað varðar umfjöllun greinarinnar um lagalega óvissu þá er því til að svara að rætt var við fjölda lögfræðinga, sex alls, sem allir eru sérfróðir í félagarétti. Þrír þeirra voru tengdir Vinnslustöðinni á einhvern hátt og vildu ekki tjá sig. Þrír aðrir voru tilbúnir að tjá sig, en ekki undir nafni. Svör þeirra voru á þá leið að ekki væri ljóst lagalega hver fer réttilega með stjórn félagsins. Einn taldi að gamla stjórnin, sem enn er skráð ætti að fara með stjórnina. Aðrir voru ósammála og töldu jafnvel að stjórnin sem kosin var á fundinum 6. júli ætti að fara með stjórnina – svo er einnig ljóst að minnihlutinn er ósammála því.

Við vinnslu fyrri fréttarinnar um Vinnslustöðvarmálið reynist snúið að ná í þá sem tilnefndir voru af meirihluta í talningarnefnd. Annar fulltrúinn var í sumarfríi og ekki tókst að ná í hinn. Alltaf má deila um það hversu langt á að ganga til að afla heimilda, en fyrst að engar athugasemdir bárust frá meirihlutanum eftir birtingu fyrri greinarinnar var það mat blaðsins að ekkert hefði verið athugavert við fréttaflutning blaðsins að ræða.

Að öllu þessu sögðu mun Viðskiptablaðið halda áfram fréttaflutningi af málefnum Vinnslustöðvarinnar og munu frekari fréttir birtast á næstu dögum.