Kjarasamningur Atlanta-flugmanna, sem undirritaður var í morgun , kveður á um 3,3% hækkun grunnlauna, að sögn Jóhannesar Bjarna Guðmundssonar, formanns FÍA, Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Samningurinn gildir frá og með 1. maí og gildir út mars á næsta ári. Samningurinn er að því leyti áþekkur samningi flugmanna hjá Icelandair.

Flugmenn hjá Atlanta vinna þó við önnur skilyrði og annað vaktakerfi en flugmenn hjá Icelandair, því þeir fyrrnefndu vinna eingöngu í flugi erlendis. Samningarnir eru því ólíkir hvað það varðar.

„Þetta er ágætis lending miðað við aðstæður,“ segir Jóhannes Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið. Flugmenn hjá Icelandair samþykktu á fundi FÍA um miðjan apríl að hefja undirbúning að boðun verkfalls næðist ekki saman. Jóhannes Bjarni segir að fljótlega eftir það hafi forsvarsmenn Icelandair fallist á stuttan samningstíma. Forsvarsmenn Atlanta hafa nú samþykkt slíkt hið sama.

Samningurinn við Atlanta verður kynntur viðkomandi félagsmönnum á næstunni. Á annað hundrað flugmenn hjá Atlanta eru í FÍA.

Kosning stendur nú yfir um samninginn við Icelandair, en samninganefndir rituðu undir hann 8. maí. Jóhannes Bjarni segir að niðurstaðan liggi fyrir nú á föstudag.